Ferill 344. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 344 . mál.


599. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.


    Í stað 2. mgr. 111. gr. laganna koma fjórar málsgreinar er orðast svo:
    Það skal vera stefna við innheimtu á tekjuskatti og eignarskatti samkvæmt lögum þessum að allir gjaldendur sem eins stendur á um við innheimtu, vanskil og nauðungaraðgerðir, skuli hljóta sams konar meðferð.
    Telji innheimtumaður tök á að tryggja greiðslu kröfu, sem ella mundi tapast, með samningi um greiðslu skal hann gefa fjármálaráðherra skýrslu um málavöxtu. Fjármálaráðherra er heimilt að samþykkja slíkan samning, að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar.
    Telji innheimtumaður að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi gjaldanda við skuldheimtumenn skal hann gefa fjármálaráðherra skýrslu um málavöxtu. Fjármálaráðherra er heimilt að samþykkja nauðasamning, að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar, enda sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
    Gjaldandi sé skuldlaus í virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjaldi og vörugjaldi, sem og öðrum sköttum sem lokunarheimild fylgir lögum samkvæmt.
    Skattkröfur séu ekki til komnar vegna endurákvörðunar skattyfirvalda á gjöldum vegna skattsvika.
    Ljóst sé að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi.
    Að loknu hverju innheimtuári skal Ríkisendurskoðun gefa Alþingi skýrslu um alla samninga skv. 3. mgr. og nauðasamninga skv. 4. mgr.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi þann 1. júlí 1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á undanförnum árum hefur greiðsluvandi heimilanna farið vaxandi og er brýnt að gripið verði til aðgerða af því tilefni. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. apríl 1995 segir svo hvað þetta varðar: „Stuðla verður að því að einstaklingar sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum, hafi möguleika á því að ná tökum á fjármálum sínum.“ Þetta frumvarp miðar að því að ráða bót á þessum vanda, en samhliða er í sama skyni lagt fram af dómsmálaráðherra frumvarp til laga um réttaraðstoð við einstaklinga til að leita nauðasamninga og af félagsmálaráðherra frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga.
    Greiðsluvandi heimilanna á sér margar skýringar. Með þessum frumvörpum er leitast við að gera þær breytingar á löggjöf sem stuðlað geta að því að einstaklingar geti komið lagi á fjármál sín án þess að þurfa að fara í gjaldþrotaskipti með þeim óþægindum sem því óhjákvæmilega fylgir. Á undanförnum árum hefur gjaldþrotum einstaklinga fjölgað til muna. Þessi fjölgun á sér ýmsar skýringar. Sú sem vegur hvað þyngst á metunum eru hertar innheimtuaðgerðir innheimtumanna opinberra gjalda. En reikna má með því að u.þ.b. fjórar af hverjum fimm beiðnum um gjaldþrotaskipti séu frá innheimtumönnum ríkissjóðs vegna vangreiddra skatta og gjalda. Þótt þessar hertu aðgerðir hafi án efa skilað sér í bættri innheimtu skatta hafa þær á sama hátt haft það í för með sér að ótímabærum gjaldþrotum einstaklinga hefur fjölgað. Stafar það m.a. af því að nauðasamningaleið hefur verið nokkuð torsótt fyrir einstaklinga utan rekstrar. Kemur þar einkum tvennt til, þ.e. annars vegar eiga einstaklingar í greiðsluvandræðum eðli máls samkvæmt erfitt með að kaupa sér sérfræðiaðstoð við nauðasamningagerð og hins vegar það að innheimtumenn ríkissjóðs hafa ekki mælt með nauðasamningum. Þessi afstaða innheimtumanna byggir á því að þeir hafa ekki talið sér fært að taka þátt í slíkum samningum, jafnvel þó um sé að ræða formlega nauðasamninga samkvæmt lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Hefur það verið rökstutt með því að mikilvægt er að jafnræðisregla sé virt við skattheimtu og ekki er til að dreifa almennri lagaheimild sem opnar fyrir að innheimtumenn mæli með nauðasamningum. Þetta hefur haft í för með sér að einstaklingar sem hafa getað fengið aðstoð ættingja og vina til að standa undir nauðasamningi hafa ekki náð slíkum samningi og ríkissjóður því þurft að afskrifa skattkröfur sínar að aflokinni gjaldþrotameðferð viðkomandi einstaklings.
    Verði frumvarp þetta að lögum mun fjármálaráðuneytið hafa heimild til að mæla með nauðasamningum að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Mun þessi heimild hafa þau áhrif að skattheimta ríkissjóðs verður ekki sú hindrun sem verið hefur hingað til fyrir því að nauðasamingar geti náðst við skuldheimtumenn. Sérstök athygli er vakin á því að heimildin er ekki bundin við einstaklinga utan rekstrar heldur á hún jafnt við um einstaklinga og lögaðila. Um nánari skýringar vísast til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagðar eru til breytingar á 111. gr. laganna, þar sem fjallað er um innheimtu skatta. Breytingarnar felast í því að auk þess að fjármálaráðherra hafi heimild til að semja um skuldbreytingu á vangreiddum opinberum gjöldum þá mun hann hafa heimild til að mæla með nauðasamningum samkvæmt lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., að fullnægðum tilteknum skilyrðum, sem sett eru fram í þremur liðum. Fyrsta skilyrðið lýtur fyrst og fremst að þeim aðilum sem hafa haft rekstur með höndum. En gert er ráð fyrir að til þess að ráðuneytið samþykki að mæla með nauðasamningi megi gjaldandi ekki skulda virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald eða vörugjald. Þetta skilyrði byggir fyrst og fremst á því að þessum skatttegundum fylgir lögum samkvæmt lokunarheimild, þ.e. heimilt er að loka atvinnurekstri ef vanskil verða. Það fæli í sér ójafnræði ef heimilt væri að gera samninga um lækkun krafna hjá einum gjaldanda á meðan verið væri að loka atvinnurekstri hjá hinum næsta. Annað skilyrðið er það að skattar þeir sem gjaldandi skuldar séu ekki vegna endurákvörðunar skattyfirvalda vegna skattsvika gjaldanda. Ekki þykja rök standa til að semja um slíkar skuldir eða mæla með niðurfellingu þeirra að hluta á grundvelli nauðasamninga. Að lokum er almennt skilyrði þess efnis að ljóst sé að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi. Myndi það almennt vera háð hlutlægu mati ráðuneytisins í hverju tilviki að fengnum umsögnum innheimtumanns og Ríkisendurskoðunar. En gert er ráð fyrir að umsagnir þeirra liggi ávallt fyrir áður en ákvörðun er tekin. Jafnframt er gert ráð fyrir að Ríkisendurskoðun taki árlega saman fyrir Alþingi skýrslu um nauðasamninga með sama hætti og sú stofnun gerir um skuldbreytingar á skattaskuldum.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir gildistöku þann 1. júlí 1996 í samræmi við gildistökuákvæði frumvarps til laga um réttarastoð við einstaklinga til að leita nauðasamninga.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981,


um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


    Frumvarpið er tengt frumvarpi til laga um réttaraðstoð við einstaklinga til að leita nauðasamninga. Í þessu frumvarpi er lagt til að fjármálaráðuneytið fái heimild til að mæla með nauðasamningum að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Ekki er talið að frumvarpið hafi í för með sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð en vísað er til umsagnar um kostnaðaráhrif frumvarps til laga um réttaraðstoð við einstaklinga til að leita nauðasamninga.